Upprunalegi Mcdonalds

Upprunalegi McDonalds

Eftir að McDonalds yfirgaf Ísland er fátt um fína drætti fyrir sanna McDonalds hamborgaraunnendur. En örvæntið eigi. Þótt McDonalds hafi gefist upp á að elda McDonalds borgara á Íslandi, er ekki þar með sagt að allir þurfi að hætta því. Það er nefnilega ekki svo mikið mál að gera ekta, upprunalegan, ljúffengan og ódýran McDonalds hamborgara heima hjá sér. Aðalatriðið er að FYLGJA uppskriftinni og gera nákvæmlega það sama og McDonalds-bræðurnir gerðu þegar þeir fundu upp hamborgarann vinsæla. Hér á eftir fer uppskrift að hinum eina sanna, venjulega McDonalds hamborgara.

Venjulegur McDonalds hamborgari — uppskrift.

Formáli
Venjulegi hamborgarinn frá McDonalds er hinn eini sanni, gamli góði, hamborgari sem kom fyrirtækinu á kortið 1948. Síðan þá hafa margir hamborgarar verið hesthúsaðir og Venjulegi borgarinn þróast og breyst. Til hins betra segja sumir. Til hins verra segja aðrir. Um miðjan níunda áratuginn datt einhverjum McDonalds liðsmanninum það snjallræði í hug að steikja borgarana báðum megin í einu og stytta þannig steikingartímann um helming. En sú breyting kostaði sitt. Nefnilega bragðið. Það breyttist. Enn eru til menn sem gráta gamla góða, upprunalega, eina sanna McDonalds hamborgarabragðið.

Sögustund
Sölumaður að nafni Ray Krog kynntist McDonalds bræðrunum í San Bernardino í Kaliforníu 1954. Hann var þá að reyna að selja þeim mjólkurhristingsmaskínu. Hann varð svo hrifinn af hamborgaranum að hann gerði samning við bræðurna um að opna útibú í Des Plaines í Illinois. Sem hann og gerði ári seinna. Ray loðnaði nokkuð um lófana næstu árin.

Uppskriftin
Nú er rétt að vinda sér að uppskriftinni. Uppskriftin getur af sér tíu hamborgara. Hvort hún dugi tíu manns er ekki gott að segja.

500 gr nautahakk (80% magurt)
10 lítil hamborgarabrauð
10 súrsaðar akúrkusneiðar
10 tsk þurrkaður, saxaður laukur
McDonalds hamborgarakrydd (sjá neðar)
Sinnep
Tómatsósa
10 stk. vaxpappírsblöð, 30x30 sm að stærð

McDonalds hamborgarakrydd
4 msk salt
2 msk bragðbætir (sodium glutamate, msg, „Þriðja kryddið“)
1 tsk malaður svartur pipar
1/4 tsk laukduft

Hrært saman og sett í kryddstauk með nægilega stórum götum fyrir piparinn. Uppskriftin gerir um 90 gr af kryddi. Nauðsynlegt er að setja þetta krydd á ALLA McDonalds hamborgara eigi þeir að standa undir nafni. Þeir sem eru með ofnæmi fyrir msg (glutein ofnæmi) eða vilja ekki nota msg geta einfaldlega sleppt því og aukið salt og pipar um 1 tsk hvort.

Borgararinn
Skipta hakkinu í 10 jafn stórar kúlur. Fletja hverja kúlu út á vaxpappír svo hún verði um 10 sm að stærð og 6 til 7 mm á þykkt. Frysta borgarana í amk. klukkustund (það kemur í veg fyrir að þeir detti í sundur við steikingu).

Laukurinn
Setja þurrkaða laukinn í skál með loki. Vatnið verður að flæða talsvert yfir laukinn, um 10 sm. Skálin látin standa lokuð í ísskáp í hálftíma. Hella vatninu af. Laukurinn ætti þá að vera orðinn eins og ekta, upprunalegur McDonalds laukur. Setja lokið aftur á og kæla í ísskápnum að matartíma.

Súrsaða gúrkan
Súrsaða gúrkan frá McDonalds er alveg sér á báti hvað varðar bragð. Hún er fremur súr. Eina súrsaða gúrkan sem kemst nálægt því að bragðast eins og ekta, upprunaleg McDonalds súrsuð gúrka er frá Heinz. Hægt er að kaupa óskornar súrsaðar gúrkur og skera á eigin spýtur. Gæta ber þess að sneiða gúrkuna afar þunnt. Það er nokkuð vandaverk og eiginlega varla á færi áhugamanna nema þeir eigi áleggsskurðarvél. Annað sem ber að gæta er að sneiða gúrkuna skáhalt því annars verða sneiðarnar of litlar.

Brauðið
Skilja alveg að kórónuna og hælinn. Ekki er víst að það fáist hamborgarabrauð af réttri stærð á Íslandi. Lesendur ættu endilega að láta höfund vita ef þeir vita um stað sem selur slík brauð.

Vaxpappírinn
Mjög mikilvægt er að vefja hamborgaranum í vaxpappírinn að matreiðslu lokinni.

Matreiðsla
Mikilvægt er að hafa innihald uppskriftarinnar tilbúið þegar hafist er handa, vegna þess að eldamennskan tekur afar stuttan tíma. Stilla bakarofninn á 50 gráður, eða lægstu stillingu („Halda heitu“ stillingu). Tvær steikarpönnur, ein fyrir hamborgarana og hin fyrir brauðið. Fíra undir pönnunum. Meiri hita undir hamborgarapönnunni en brauðpönnunni. Það er erfitt að meta hvað er nákvæmlega rétt hitastig. Það fer eftir eldavélum, tegundum og hvort þær eru drifnar af gasi eða rafmagni (æfingin skapar meistarann).

1. Setja kórónur fjögurra brauða á pönnuna þannig að topparnir snúi NIÐUR. Setja eldfast mót (eða eitthvað álíka) ofan á brauðin. Það er gert til að ristunin verði með jöfnum þrýstingi.

2. Setja hálf-frosnu borgarana á pönnuna (eða grillið). Eftir 20 sek þrýsta þeim niður með steikarspaða. Nota höndina sem ekki heldur um spaðann til að þrýsta fremsta hluta steikarspaðans niður í 2 sek. Gæta þess að brenna sig ekki! Steikarhljóðið ætti að magnast við þrýstinginn. Krydda vel með McDonalds hamborgarakryddi.

3. Fjarlægja brauðin af pönnunni. Setja hælana á pönnuna og rista á sama hátt og kórónurnar.

4. Snúa borgurunum eftir 1 mín steikingu. Krydda og setja u.þ.b. 4 tsk af lauk á pönnuna (nota fingurna, ekki tsk, það tekur of langan tíma, æfingin skapar meistarann). 1 tsk á hvern borgara.

5. Skreyta brauðið. Kóróna: 5 kossar af sinnepi á þykkt við blýant í hring um 1,5 sm frá ytri brún með jöfnu millibili. 5 kossar af tómatssósu (helst Hunts) á stærð við íslenska krónu í mynstur eins og fimmta hliðin á teningi lítur út. Setja súrsuðu gúrkuna í miðjuna.

6. Þegar þessu er lokið ættu borgararnir að vera tilbúnir svo fremi brauðskreytingin hafi ekki tekið lengri tíma en 1 mín og 10 sek. Fjarlægja hamborgarana af pönnunni og halla á hlið til að láta auka feiti leka af. Halda lauknum föstum með hinni hendinni. Setja hamborgarann á skreyttu kórónuna, sem er á hvolfi, með laukinn upp. Setja hælinn á.

7. Leggja einn hamborgara á HVOLF á miðjan vaxpappírinn. Vefja þétt utan um borgarann. Það á að líta út eins og sporöskjulaga, ílöng túpa með 2 opna enda en borgara í miðjunni. Vefja opnu endunum undir botninn á hamborgaranum þannig að hann lokist alveg.

8. Setja umvafða hamborgarann í volgan bakarofninn. Þroska í 8 til 10 mín. Á meðan elda hinn helminginn af borgurunum. Gæta þess að pannan sé laus við brenndan lauk þegar næsti skammtur er matreiddur.

Athugið! Mikilvægt er að passa að ofninn hitni ekki of mikið. Þá er hætta á að borgararnir ofþroskist. Einnig má setja hamborgarana í örbylgjuofní 15 sek. Það þroskar þá líka en það gefur ekki sama upprunalega bragðið. Sumum finnst örbylgjuþroskun gefa betra bragð en hefðbundin ofnþroskun.

Gjörið svo vel! Svona voru upprunalegu McDonads hamborgararnir gerðir. Nákvæmlega svona var þeim ÆTLAÐ að vera.

HambogariHambogariHambogariHambogariHambogariHambogariHambogariHambogari