Núðlur með ferskum afgöngum

Núðlur með ferskum afgöngum
2 pakkar núðlur (skyndi) mjög ódýrar
Grænmeti eftir smekk og bara það sem til er í ískápnum: t.d. brokkolí, gulrætur, blómkál, paprika og sveppir
Afgangar af kjöti ef til er
Olía

Matreiðsla
Sjóðið núðlurnar í ókrydduðu vatni í 2 mínútur (samkvæmt pakkanum). Steikið grænmetið uppúr olíu og hitið afgangin af kjötinu. Blandið núðlunum saman við grænmetið og kjötið í skál, fínt að setja smá smjörlíkisklípu út í. Einnig er gott að nota kryddið úr núðlupökkunum út á matinn.

Flokkur: kvöldmatur

Aðalheiður Davíðsdóttir

Þrír réttir í þrjú mál

Skrúfupasta með túnfiski
Skrúfupasta
Túnfiskur í olíu
Paprika
Rauðlaukur
Salt og pipar
Parmesan ostur

Matreiðsla
Pastað soðið í saltvatni þar til al dente. Rauðlaukur og paprika skorin í bita og snöggsteikt í olíu á pönnu með salti og pipar. Túnfiskurinn settur á pönnuna örstutta stund til að hita hann í gegn. Heitt pastað sett saman við og hrært vel. Bragðað til með salti og pipar. Parmesan yfir ef vill. Borið fram strax.

Flokkur: Hádegismatur

---

Kjúklingaréttur og soðsúpa
Hér er réttur sem skiptist í raun í nokkrar máltíðir fyrir einn. Súpan ætti að duga í tvo skammta en kjúklingarétturinn í fjóra til sex eftir því hve mikið grænmeti er sett í fatið. Svo er fínt að frysta þetta og henda í örbylgjuna þegar þörf er á.

1 heill kjúklingur í pott og ríflega af vatni. Soðinn með 2 kjúklinga- eða grænmetisteningum. Þegar soðinn í gegn er hann tekinn upp úr.

Kjúklingaréttur
Allt kjöt hreinsað af beinunum og skorið í bita. Léttsoðnar kartöflur og sætar kartöflur skornar í skífur og lagðar í botn á smurðu fati. Kjúklingurinn þar yfir. Grænmeti að vild yfir allt eftir því sem til er á heimilinu. Kaffirjómi, sýrður rjómi, dijon sinnep, sætt sinnep og smá dash af balsamic ediki hrært vel saman og bragðað til með salti og pipar. Hellt yfir fatið og inn í ofn á ca 180°C þar til vel heitt í gegn. Þá má setja ost yfir ef vill og stinga í ofninn í nokkrar mínútur þar til bráðinn.
Þótt kartöflur séu í réttinum má alveg bera soðin hrísgrjón með honum. Það er bara betra.

Soðsúpa
Beinin sett aftur út í pottinn og allt látið sjóða niður í ca 30 mínútur. Síað vel og bragðað til með salti og pipar. Núðlur settar út í og látnar sjóða með soðinu þar til al dente. Ef til er afgangsgrænmeti í ísskápnum þá endilega setja það með út í pottinn. Borið fram með brauði og smjöri.

Flokkur: Kvöldmatur

---

Skyr með ávaxtabitum
Gott er að eiga ávaxtabita í frysti og taka nokkra mola í einu í blandarann. Skera má niður appelsínur, banana, ferskan ananas, sítrónur, perur, epli, og hvað annað sem hugurinn girnist. Setja í venjulega plastpoka inn í frysti og taka svo eins og þarf í hvern skammt. Þarna er til dæmis fínt að nota banana sem farnir eru að dökkna og perur sem farnar eru að láta á sjá. Bragðið skilar sér alveg eftir mölun í blandaranum.

Hrært skyr án bragðefna eða hrein AB mjólk
Sykurlaus ávaxtasafi
Ávaxtabitar úr frystinum
Allt sett í blandara og hellt síðan í skál. Hollt musli út á, þ.e. ekki með sykri eða súkkulaðibitum

Flokkur: Morgunmatur

Verði ykkur að góðu!
Björk Felixdóttir

Spældar kartöflur

Ég held að mér takist nú ekki að toppa hafragrautinn sem ódýrasta morgunmatinn en ég á uppskrift að ódýrum og hollum hádegismat/kvöldmat. Venjulega myndi ég nú ekki elda þetta fyrir einn þar sem það er mjög óhagkvæmt að elda í litlum skömmtum en ef þetta væri fyrir einn væri þetta ca. svona:

1/2 bolli gróft rifnar kartöflur
1/2 bolli gróft rifnar rófur
2 - 3 strá af smátt klipptum graslauk
1 egg
3 msk mjólk
1/8 tsk salt

Matreiðsla
Þeytið saman egg, mjólk og salt með písk og bætið hinu út í. Steikið á meðalhita á pönnu í ca 3 mín. á hvorri hlið.
Með þessu er gott að bera fram salat úr rifinni agúrku og smátt klipptri hundasúru (sem kostar ekki neitt) með skvettu af ediki eða sítrónusafa og örlitlum sykri. Þar með er maður kominn með máltíð sem inniheldur alla fæðuflokkana.
Ef maður tímir að splæsa í aðeins dýrari máltíð má skella í klattana smátt skorinni pylsu eða skinku og eins er hægt að bera klattana fram með eplamauki. Bara láta hugmyndaflugið og forðabúrið ráða  ;o)

Flokkur: Hádegismatur/Kvöldmatur

Verði ykkur að góðu!
Dagný Zoega

Kjötsúpa eða Naglasúpa

Um 1 og ½ l vatn
1 grænmetissúputeningur,má vera önnur tegund ef græmmetis er ekki til.
1-2 dl súpujurtir
1-3 gulrætur
1 laukur
2 kartöflur skornar í bita,ef til eru kartöflur frá síðustu máltíð nota þær
1-2 dl hrísgrjón
1 kjötbiti ef til ef annars óþarfi

Matreiðsla
Svo tíni ég í súpuna annað grænmeti ef til er td.brokkoli,hvítkál og blómkál.
Matarolía ca ½-1 dl fer svo í súpuna þegar hún er farin að sjóða. Þ.e ef ég á ekki kjöt.
Þetta er látið malla í 30-40 mínútur, hrært í súpunni af og til á meðan.
Smakkað til með salti ef með þarf.
Ef súpan er of þykk er bara að bæta vatni í eftir þörfum.

Þegar ekkert kjöt er í súpunni kallast hún Naglasúpa á mínu heimili.

Uppskriftin er fyrir fimm.

Flokkur: Kvöldmatur

Verði ykkur að góðu!
Pálmey Gísladóttir

Pasta með kjúklingasúpu

Tillaga að kvöldmat fyrir um 4:

Pasta
1 Sveppasúpa í dós
1 dós gular baunir
1 paprikka
1 túnfiskdós

Matreiðsla
Soðið pastað er blandað saman við niðurskorna paprikkuna, gulu baunirnar, túnfiskinn og sveppasúpuna (notuð beint úr dósinni).

Allt sett í eldfast mót og hitað við 180 gráður, þangað til yfirborðið er orðið gulbrúnt.

Verði ykkur að góðu!
Jóhanna Linda Hauksdóttir

Ljúfeng tómatsúpa

2 tómatar
0,5 laukur
0.5 gulrót
1tsk olía
0.5 súputeningur, það sem fólk á
200 ml vatn
0.5 hvítlaukrif
0.5 tsk sykur (má líka nota hunang eða síróp )
Pipar eftir smekk.

Matreiðsla
Tómatar, laukur og gulrót er söxuð og léttsteikt upp úr olíu. Blandið vatninu og teningnum saman og sjóðið þar til grænmetið er meyrt. Bætið sykri og kreist hvítlauksrif út í og piprið eftir smekk.  Út í þessa
súpu má svo bæta ýmsum afgöngum, eins og kjúkklingi, pasta, rjóma eða sýrðum rjóma og þá er þetta jafnvel orðin saðsöm kvöldmáltíð.

Flokkur: Hádegismatur

Verði ykkur að góðu!
Tinna Hrund Birgisdóttir