Sparnaðarráð

Einnota kryddkvarnir

KryddkvornMargir halda að einnota kryddkvarnir sem fást í öllum betri matvöruverslunum séu í raun einnota. En þær eru ekki einnota nema síður sé. Það er lítið mál að opna þær og bæta við kryddi, til dæmis piparkornum, í þær. Kaupa piparkorn í magni og bæta á kvörnina þegar þörf krefur. Einnota kvarnirnar eru að vísu hannaðar til að nota bara einu sinni svo það sé hægt að selja fleiri, en með kænsku og lagni má auðveldlega opna þær. Eina sem þarf er venjulegur eldhúshnífur eins og þeir sem notaðir eru til að borða með. Setja hann undir brúnina og spenna upp. Yfirleitt fýkur lokið og kvörnin þá af. Ef kvörnin er með leiðindi gæti verið sniðugt að hita plastið í vatni. Það mýkir það og gerir enn auðveldara viðfangs.

Eggjabakkar

Eggjabakkablom
Úr pappír

Þetta hafa tónlistarmenn vitað í áratugi: Eggjabakkar eru frábær hljóðeinangrun, þeir drekka bókstaflega í sig allt hljóð. Það má mála þá og festa á fyrirfram tilsagaðar plötur til að skapa stíl. Þótt ekki séu þeir fallegasta form í heimi, þá má vel nota þá sem ílát undir smádót eins og bréfaklemmur, hárteygjur, teygjur, skrúfur og svo framvegis.

Úr frauðplasti

Slíkir bakkar eru stórsniðugir til að frysta í allskonar matarskammta, til dæmis smákökudeig, kjötbollur, hvítlaukssmjör (eða bara hvaða kryddsmjör sem er). Eins og jógúrtdollurnar eru frauðbakarnir góðir til að sá í fræjum. Það má líka geyma golfbolta í þeim og smápeninga.

Rennilásapokar

RennilasapokiRennilásapokar eru yfirleitt sterkir og endingargóðir, en þeim er engu að síður reglulega hent, jafnvel eftir aðeins eina notkun. Oft er nóg að skola þá að innan, setja á rönguna meða þeir þorna, og nota svo aftur. Það þarf ekki endilega að nota þá undir mat, það má setja hvað sem er í þá. Til dæmis: 1) Sokkabuxur með miðanum af pakkanum með sem sýnir litinn. Það kemur í veg fyrir óreiðu í sokkaskúffunni. 2) Pökkunarpoka. Ef þú þarft að senda kassa með einhverju geturðu notað rennilásapoka sem einangrun. Blása í pokann með röri og loka. Gæti ekki verið einfaldara. 3) Setja mulinn ís í þá og geyma í frystinum þar til að tognun eða bruna kemur. 

Tveggja lítra gosflöskur

FloskuilskorEndurvinnslan er einn kostur, en það er annar kostur og hann er sá að nota gosflöskurnar til að halda leðurstígvélunum í formi. Stinga sinni flöskunni ofan í hvort stígvél og þau verða sem ný í áraraðir. Ertu á leiðinni til sólarlanda í sumar? Þá færðu ekki ódýrari ilskó en þá sem sjást á myndinni.

Þurrkukassar og eldhúsrúllur


ThurrkukassiÞegar þurrkurnar eru búnar, ekki henda kassanum vegna þess að það má setja plastpoka í hann og nota sem pokaskammtara. Eldhúsrúllan getur gert sama gagn og þurrkukassinn, það má vel troða plastpokum í hana og toga svo úr eftir þörfum. Ekki eins fallegt og þurrkukassinn en gegnir sama hlutverki.

Korktappar

 KorktapparÖrlög korktappanna eru oft þau að vera fleygt í ruslið. Það er sóun vegna þess að þeir eru til marga hluta nytsamlegir. Það má til dæmis saxa þá niður og setja í blómabeð. Þeir drekka í sig raka í vætu og gefa frá sér raka í þurrki. Það má líka dýfa þeim í grillvökva og nota til að kveikja upp. Þau sem sækja sjóinn, til dæmis skútusiglarar og kafarar, ættu að búa til lyklakyppu úr korktappa því hún flýtur. Ef það lekur of hratt þegar hellt er úr ólífuolíuflösku eða bara hvaða flösku sem er, skerðu rás í korktappa og settu í stútinn. Þá er miklu auðveldara að stjórna flæðinu. Skerðu korktappa í sneiðar og límdu undir fæturna á húsgögnum. Það hlífir gólfinu. Skerðu mynstur út í toppinn á korktappanum og notaðu sem stimpla. Sneiddu sneið eftir endilöngum korktappanum og rás að ofan, þá ert komin með fyrirtaks miðaklemmu til að setja á nöfn gesta í næstu veislu (sjá mynd). Límdu korktappa í hring og þá ertu komin með hitamottu.