Sparnaðarráð

Sparnaðarráð: Lita gömlu gallabuxurnar

GallabuxurFyrirEHver kannast ekki við að eiga frábærar og æðislegar gallabuxur sem eru farnar að láta aðeins of mikið á sjá? En ekki lengur. Nú geta allir notað gömlu og góðu gallabuxurnar miklu lengur fyrir brot af kostnaðinum við að kaupa nýjar.

Fyrir nokkrum árum keypti vinkona Matarkörfunnar gallabuxur sem pössuðu eins og flís við rass og létu hana líta út fyrir að vera algjör pæja. Eftir margra ára notkun fóru buxurnar aðeins að láta á sjá. Voru orðnar frekar snjáðar. En buxurnar voru samt alveg heilar, bara upplitaðar. Vinkonan fór á stúfana og kannaði málið. Ekki leið á löngu þar til hún fann lausn. Fataliti.

Vinur Matarkörfunnar af karlkyni gerði slíkt hið sama um daginn og árangurinn var undraverður. Snjáðu gallabuxurnar litu út eins og nýjar eftir litameðferð með litum sem keyptir voru hjá Þorsteini Bergmann á Skólavörðustígnum.

Sparnaðarráð dagsins er að lita gömlu gallabuxurnar og spara kannski 20 þúsund.

Skólavörðustígurinn virðist vera rétta gatan til að kaupa fataliti vegna þess að þeir fást að minnsta kosti í tveimur búðum þar. Hjá Þorsteini Bergmann og Föndurbúðinni. Kópavogsbúar geta keypt liti í hannyrðabúðinni Mólý í Hamraborg. Litirnir fást víðar, til dæmis í Mörkinni og í sumum efnalaugum.

Klippa manninn sinn heima

Hver kannast ekki við að sjá fólk með klippingar sem æpa á mann: „Klippt heima!“ En ekki lengur. Nú geta allar klippt mennina sína heima næstum því eins og fullnuma hárgreiðslumeistari frá, Iðnskólanum, Toni & Guy og Wella. Í myndbandinu sem fylgir þessu sparnaðarráði er sýnt hvernig klippa á manninn sinn á einfaldan hátt en samt þannig að það lítur út fyrir að hafa verði gert á Slippnum, Rauðhettu og úlfinum eða Skál og skærum. 

Sturtuhengi

SturtuhengiÞegar sturtuhengin verða ógeðsleg er samt ekki rétt að henda þeim. Þau eru fyrirtaks ábreiður á gólfin þegar málað er. Sturtuhengi er hægt að nota sem hlíf á framrúðuna á bílnum að vetri. Klipptu hengið þannig að það passar á framrúðuna og láttu segla halda því niðri að ofan og þurrkurnar að neðan (ef veðrið er ekki því vitlausara). Þá þarf ekki að skafa að morgni.

Skókassar

SkkassiSagt er að kona geti aldrei átt of marga skó. Það er rétt. Sama gildir um skókassa, það er varla hægt að eiga of marga skókassa. Þeir hafa verið notaðir undir ástarbréf í þúsund ár. En það má nota þá undir ýmislegt annað sem þarf að geyma og spara stórfé við kassakaup í IKEA. Skókassar koma í öllum stærðum og gerðum og til að skapa heildarútlit er alveg óvitlaust að klæða þá alla með sama umbúðapappírnum og setja límmiða framan á með innihaldslýsingu. Svo er óvitlaust að nota skókassana til að geyma skó, já skó. Taka mynd af skóparinu og setja framan á kassann. Þá veistu hvaða par er í hvaða kassa og engir skór rykfalla. Skókassa má líka nota í skúffurnar til að skilja að nærbuxurnar frá brjóstahöldurunum og sokkunum.

Gamlir bolir

BolurÞegar götin á gamla uppáhalds bolnum eru orðin fleiri en vötnin á Arnarvatnsheiði er kominn tími til að senda bolinn á eftirlaun. Það má til dæmis búa til kodda úr honum þar sem „Hitler's European Tour“ eða „Dark Side of the Moon“ snýr fram. Venjulega boli sem höfðu ekkert fram að færa í lifanda lífi er tilvalið að gera að tuskum í eldhúsinu. Það má klippa þá í tvær stærðir, litlar tuskur fyrir húsmóðurina og stórar tuskur fyrir húsbóndann. Þá una allir sáttir við sitt.

Gamlir stakir sokkar

TyndurSokkurSokkar hafa tilhneigingu til að týnast, engu er líkara en það sé eitthvað kvikindi í sokkaskúffunni eða undir rúminu sem étur sokka og þá yfirleitt bara annan. Hvað á að gera við sokkinn sem ekki týnist? Það er margt, svo ekki henda honum alveg strax. Til dæmis má setja skrúfur eða annað smádót í þá eða klæða sig í þá utan yfir skóna til að hlífa þeim þegar verið er að bralla eitthvað sóðalegt eins og að búta sundur lík eða mála íbúðina.