Sparnaðarráð

Hagstætt og áhrifaríkt húsráð

Ég er alveg hætt að nota blettaeyði, í stað þess nota ég uppvöskunarlög á alla
bletti og viti menn þeir hverfa allir, meiri að segja rauðvínið fer úr. Nú svo er
það líka miklu ódýrara heldur en að kaupa blettaeyði.

Soffía R. Guðmundsdóttir

Ýmis sparnaðarráð

Frystikista

Magninnkaup. Gerið magninnkaup þegar t.d. frosin fiskur, nautahakk, kjöt í ½ eða heilum skrokk eru á boðstólum. Pakkið í hæfilega skammta, merkið með innhaldi dagsetningu og frystið.

Forsjóða. Elda rétti og pakka þannig að þeir séu tilbúnir til upphitunar í frystinum. T.d. mjög handhægt að eiga kjöt- og fiskibollur að grípa til.

Rétt magn. Kaupa mátulegt í magn í þann rétt sem við ætlum að elda. Það er nokkuð sem lærist með reynslunni.

Afgangarnir ljúfu. Afganga er upplagt að nota sem fyllingar í sósur. Þar má nefna kartöflur, hrísgrjón, pasta og grænmeti. Og sama er með fisk og kjöt.

Búa til soð og frysta. Gott kjöt- og fiskisoð er auðvelt að sjóða af beinum. Krydda að smekk. Soð má frysta í teningum og eiga þannig kraft í sósur og súpur.

Breyta brauði í rasp. Brauðafganga er hægt að nota með því að þurrka sem rasp, eða bleyta upp með hrærðu eggi og steikja á pönnu. 
Fylgjumst vel með tilboðum, berum saman verð og kaupum einungis það magn sem við treystum okkur til að geyma, frysta eða nota áður en það skemmist.

 

Hvernig hægt er að vera hagkvæmur

Sigrún Jóna Sigurðardóttir sendi þessi sparnaðarráð:

Mín sparnaðarráð eru einföld. Ég hef mjög litla peninga til ráðstöfunar í matarkaup og kaup á hreinlætisvörum, hvað þá öðru. Ég veit hvað ég fæ mánaðarlega í bætur. Ég veit hvað þarf að borga af íbúðarláninu, fyrir lyf, rafmagn og svo framvegis.

Tek frá afganginum 10% og deili þvi sem eftir er í 4 hluta.

Eyði ekki nema því sem ég má í hverri viku. Hversu mikið sem mig langar í annan mat. Grjóna-og hafragrautar eru góðir og voru góðir í kreppum fyrri ára.

Stundum og oftar núna en í desember t.d. þá horfi ég á tóman ísskápinn og er svöng. En ég á hafragrjón og hrísgrjón, og þá er málinu bjargað. Þ.e. ef ég á mjólk.

Að fara yfir á yfirdráttarheimildina, er bannað. Það er lán, og öll lán vinda uppá sig og maður er þá að borga meira fyrir viðkomandi vöru en þarf.
Ég kaupi íslenskt alltaf ef því verður viðkomið, og forðast erlent grænmeti. Það er samt ekki sama hvert upprunalandið er, sem kemur ekki fram á umbúðunum.

Vistvænt eða lífrænt, hef ég ekki efni á að hugsa um eða hef nokkurt val um.

Það er alltaf dýrara, og ég er efins um að það sé vistvænna eða lífrænna en íslenskar vörur.

Kaupi ekki plastpoka í búðum, en er alltaf með taupoka í bílnum.

Nota sérhverja ferð á bílnum, til að reka þau erindi sem eru í leiðinni, í það skiptið. Engin ferð bara til að skreppa í eina búð eða svo. Það liggur mjög sjaldan svo mikið á.

Baka matarbrauðin heima, og hef ekki nein sætabrauð með kaffinu

Undatekning er ef ég veikist og VERÐ að fara á slysadeildina eða læknavaktina!!!

Ég bjó í sveit, og þar voru ekki verslanir og við áttum ekki bíl fyrstu 3 árin. Lifðum það af.

Sigrún Jóna Sigurðardóttir

Nokkur sparnaðarráð

Minna gos. Það getur reynst gott að draga úr neyslu á gosdrykkjum, og það er líka gott fyrir tennurnar! Við eigum svo gott vatn á Íslandi.


Taupokar. Svo er einnig hægt að nota taupoka þegar keypt er inn í stað þess að kaupa tvo til þrjá poka í hverri versluunarferð.


Drjúgur matur. Það er t.d. sniðugt að kaupa poka af hrísgrjónum og kassa af haframjöli því  það er holl fæða sem geymist lengi og er drjúg.

Katrín Jónsdóttir